CV (in Icelandic)

Námsferill

Doktorsnám 
Ég hóf doktorsnám við Menntavísindasvið HÍ á vorönn 2011. Reyndar var ég tekinn inn haustið 2010, en ég lauk fyrsta námskeiðinu vorið 2011 (með trompi).

MPA 2009
Ég lauk MPA haustið 2009.  Í náminu lærði ég meðal annars stjórnun,  stefnumótun, forystuhlutverk, rekstur og lögfræði.  Í valnámskeiði tók ég línulega margbreytu aðhvarfsgreiningu.  MPA lokaverkefni mitt var um starfendarannsóknir og þar gerði ég eigin starfendarannsókn. Verkefnið má nálgast hér.

Kennsluréttindi 2002
Fékk kennsluréttindi eftir að hafa kennt í næstum 10 ár.

Verkfræði, Cand. Sc. 1991

Ég hóf nám í byggingaverkfræði haustið 1987 og lauk 4 ára námi 1991. Lokaverkefni mitt var áhættumat tjóns í hugsanlegum jarðskjálfta á Suðurlandi.

Stúdent 1986
Ég varð stúdent frá M.R. árið 1986. Ég var í eðlisfræðideild I, með mikla áherslu á stærðfræði og eðlisfræði. Keppti á Olympíuleikum í eðlisfræði fyrir 20 ára og yngri í London 1986.

Starfsferill

Sumarstörf með námi: Ég byrjaði snemma að vinna. Allt í hófi, því yfirleitt var ég í fótbolta. Ég var um 10 ára þegar ég byrjaði að bera út Moggann á Hvolsvelli og ég hef verið ca. 12 ára þegar ég fiktaði við að beita fyrir vestan (ég flutti 6 ára frá Suðureyri, en heimsótti Súganda nokkur sumur). 14-15 ára var ég kominn í byggingarvinnu hjá Finni á Hvolsvelli. Einu sinni vann ég 27 klst samfleytt þegar við steyptum. Við byggðum m.a. lögreglustöðina á Hvolsvelli og félagsheimilið á Skógum undir Eyjafjöllum. Þar kviknaði sennilega áhuginn á byggingaverkfræði. Ég vann í sumarvinnuflokki Landsvirkjunar þegar ég var í menntaskóla. Bækistöðvar voru í Hrauneyjum. Þetta var aðallega girðingarvinna og viðhald, frá Búrfelli/Heklu til suðurs og alla leið norður að Hofsjökli. Við vorum mikið á ferðinni og það var góður andi. Ég vann þarna líka með Háskóla að hluta.

Störf að loknu námi:

Eftir háskólanám í verkfræði fór ég að vinna sem verkfræðingur hjá verkfræðistofunni Línuhönnun. Það var ágætt en fljótlega eftir að ég byrjaði var hætt við byggingu álvers sem var í bígerð, en það þýddi samdrátt og verkefnaleysi í greininni. Ég leitaði mér því að öðru starfi og þannig varð ég kennari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra vorið 1993 og hef verið þar síðan, með stuttum hléum þar sem ég hef farið í námsleyfi eða leyfi til annarra starfa, eins og fyrrum skólameistari minn Jón Friðberg Hjartarson orðaði það. Ég var áfangastjóri við Framhaldsskólann á Húsavík í hálft annað ár. Það var dýrmæt reynsla. Ég hef verið fagstjóri eða deildarstjóri við FNV í stærðfræði í mörg ár. Síðast en ekki síst hef ég kennt í Sumarskólanum í FB frá sumrinu 2005.

Ég hef kennt um 30 áfanga í framhaldsskóla, í stærðfræði, eðlisfræði, upplýsingatækni, forritun, meistaraskóla o.fl. Í kennslunni hef ég lagt áherslu á að nýta tækni. Ég hef t.d. notað mikið rafrænar töflur (interactive white boards) og sett nokkrar kennslumyndir á http://www.youtube.com. Hér er dæmi: Kennslumynd

Loks má nefna að ég hef tekið að mér aukastörf eins og kennslu Excel og heimasíðugerðar í Farskóla Norðurlands vestra og svo hef ég kennt skák í 5. og 6. bekk Árskóla á Sauðárkróki.

 

Advertisements